Enski boltinn

United neitaði PSG um að fá Anderson á láni

Ómar Þorgeirsson skrifar
Anderson ásamt Wayne Rooney.
Anderson ásamt Wayne Rooney. Nordic photos/AFP

Franska dagblaðið L'Equipe greinir frá því í dag að Englandsmeistarar Manchester United hafi neitað beiðni Paris St Germain um að fá miðjumanninn Anderson á láni.

Samningar á milli United og PSG munu hafa strandað á því að franska félagið var ekki viljugt til þess að greiða heildarlaun Brasilíumannsins upp í topp á meðan á fyrirhuguðum lánstímanum stæði.

Hinn 21 árs gamli Anderson kom til United á 18 milljónir punda árið 2007 frá Porto en hefur þótt valda vonbrigðum á þessu tímabili og var til að mynda sektaður af knattspyrnustjóranum Sir Alex Ferguson í síðasta mánðui þegar hann missti af æfingu.

Lyon er einnig talið hafa áhuga á Anderson og þar sem félagaskiptaglugginn er opinn til miðnættis í Frakklandi þá gætu málin enn þróast í þá átt að Anderson fari frá United eftir allt saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×