Innlent

Viðbrögð prestastefnu komu ekki á óvart

Ragna Árnadóttir
Ragna Árnadóttir

„Viðbrögðin koma ekki á óvart," sagði Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindaráðherra, á Alþingi í gær um afgreiðslu Prestastefnu á frumvarpi til hjúskaparlaga. Prestastefna vísaði frumvarpinu til frekari umræðu biskups og kenningarnefndar kirkjunnar eftir harðar deilur.

Ragna sagði að hún hefði „kannski vænst þess að Þjóðkirkjan, sem hefur samfélagslegum skyldum að gegna, hefði tekið jákvæðar í málið".

Frumvarpið heimilar kirkjunni að vígja samkynhneigð pör í hjónaband. Auður Lilja Erlingsdóttir, varaþingmaður VG, gerði afgreiðslu Prestastefnu að umtalsefni og sagði það misbjóða réttlætiskennd sinni að kirkja studd af ríkinu fái að mismuna þjóðfélagshópum eftir kynhneigð. Hún spurði hvort ráðherrann teldi rétt að svipta þjóðkirkjuna heimild til að vígja hjón? Ragna áréttaði að hún teldi að með því væri of langt gengið.

„Það er ekki tilefni til þess," sagði Ragna og sagðist ekki hafa trú á að beita ætti kirkjuna þvingun í þessu máli: „Ég tel að umræða og rökhyggja leiði til þess að það verði almennt þannig að samkynhneigð pör geti farið í kirkju, þjóðkirkju eða aðra kirkju, og fengið þar hjónavígslu," sagði hún. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×