Lífið

Óska eftir íslensku slangri

Einar Björn Magnússon (til hægri) og Guðlaugur Jón Árnason eru ritstjórar nýrrar slangurorðabókar á netinu. 
fréttablaðið/pjetur
Einar Björn Magnússon (til hægri) og Guðlaugur Jón Árnason eru ritstjórar nýrrar slangurorðabókar á netinu. fréttablaðið/pjetur

Íslenskufræðingarnir Einar Björn Magnússon og Guðlaugur Jón Árnason hafa stofnað slangurorðabók á netinu. Þar getur almenningur sett inn ný slangurorð sem mörg hver munu rata í nýja slangurorðabók sem þeir eru með í undirbúningi.

„Þetta byrjaði árið 2004 þegar ég sótti um styrk hjá nýsköpunarsjóði námsmanna til að gera slangurorðabók á netinu. Svo langaði mig alltaf líka að gefa út bók,“ segir Einar Björn. Þeir félagar hafa safnað sjö hundruð slangurorðum og biðla nú til almennings að bæta við fleiri orðum. Vonast þeir til að um 3-4000 orð endi í slangurorðabókinni, sem verður sú fyrsta sinnar tegundar síðan 1982. „Það hefur ýmislegt breyst síðan þá. Internetið var ekki til þá og ekki heldur gsm-símar. Það eru ótrúlega mörg orð búin að bætast við,“ segir Einar. Bætir hann við að orðin sem komist í orðabókina séu þau sem komast ekki í íslensku orðabókina en eru samt notuð af almenningi. Ekki bara unglingum eða utangarðsfólki heldur fólki sem notar þau í almennri umræðu.

Mörg ný orð sem tengjast bankahruninu eru komin í orðabókina á netinu og íhugar Einar að búa til sérflokk í kringum þau. Bókin fór í loftið fyrir helgi og síðan þá hafa nýyrðin streymt inn. „Núna þarf maður bara að ritskoða því það er líka ósómi sem fer þarna inn. Það þarf líka að breyta skýringunum þannig að þær séu skiljanlegar.“

Áhugasamir geta skoðað orðabókina á slóðinni htttp://slangur.snara.is. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.