Innlent

Nýr stjórnmálaflokkur að fæðast

Guðbjörn Guðbjörnsson.
Guðbjörn Guðbjörnsson.

Unnið er að stofnun nýs stjórnmálaflokks hægra megin við miðju sem ber vinnuheitið Norræni borgaraflokkurinn. Flokkurinn sækir sér fyrirmyndir til hægriflokka á Norðurlöndunum og í Mið-Evrópu.

„Þetta á að vera miðju-hægri flokkur sem trúir á blandað markaðshagkerfi þar sem velferðar- og menntakerfið hefur stóran sess," segir Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur sem á sæti í framkvæmdanefnd flokksins, og bætir við að flokkurinn leggi áherslu á vinsemd í garð atvinnulífsins. „Sterkt atvinnulíf er undirstaða velferðar, menningar og menntunar, við skiljum það."

Flokkurinn styður aðildarviðræður Íslands við ESB en Guðbjörn segir það ekki stærra stefnumál en hvað annað. Guðbjörn sjálfur sagði sig nýlega úr Sjálfstæðisflokknum sem hann er gagnrýninn á. „Sjálfstæðisflokkurinn hefur meira stillt sér upp með breska Íhaldsflokknum og Repúblikanaflokknum. Við deilum ekki þessu hatri á öllu opinberu sem maður verður var við hjá þeim flokkum. Við höfum ekkert á móti einkarekstri en þetta eiga ekki að vera trúarbrögð," segir Guðbjörn.

Flokkurinn hyggur á framboð í næstu þingkosningum en Guðbjörn segist ekki eiga von á kosningum í bráð. Engin þekkt nöfn úr stjórnmálalífinu vinna að stefnu flokksins þó flestir hafi einhvern þátt tekið í stjórnmálum áður.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×