Enski boltinn

Carragher: Hættum að skrifa slakt gengi á söluna á Xabi Alonso

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Carragher.
Jamie Carragher. Mynd/Getty Images
Jamie Carragher, miðvörður Liverpool, er á því að félagið verði að fara að gleyma Xabi Alonso og hætta að skrifa slakt gengi í vetur á söluna á honum í sumar. Liverpool hefur ekki náð að fylgja eftir góðu tímabili í fyrra þar sem liðið var aðeins hársbreidd frá enska titlinum.

Liverpool spilar í dag mikilvægan leik á móti Manchester City í baráttunni um fjórða sætið í ensku úrvalsdeildinni en það sæti skilar liðunum inn í Meistaradeildina á næsta tímabili.

„Ég hef margoft heyrt þau rök að þetta hefði ekki gerst ef að við hefðum haldið Xabi Alonso. Xabi er góður félagi minn og frábær leikmaður. Það voru vonbrigði þegar hann fór," segir Jamie Carragher við News of the World.

„Hann var hér í fimm ár og stóð sig mjög vel. En við unnum ekki deildina þegar hann var hérna, er það nokkuð? Það er ekki hægt að segja að við hefðum unnið deildina með hann innanborðs. Það er miklu fleira sem hefur áhrif," segir Jamie Carragher.

„Það er ekki hægt að vera að líta alltaf til baka. Ég vildi óska að Kenny Dalglish og Ian Rush væru enn í liðinu þannig að það væri alveg eins hægt að halda því fram að við hefðum orðið meistarar ef við værum með þá," sagði Jamie Carragher.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×