Innlent

Flestir þola öskuástandið vel

Haraldur Briem sóttvarnalæknir.
Haraldur Briem sóttvarnalæknir.
„Það er ljóst að rykgrímur hafa hjálpað fólki á öskusvæðinu undir Eyjafjöllum mikið," segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir.

Rannsókn á heilsufarslegum afleiðingum ösku og annarra efna frá eldgosinu í Eyjafjallajökli stendur nú yfir.

Hún er á vegum sóttvarnalæknis og er unnin í samvinnu við sóttvarnalækna og heilbrigðisstarfsmenn á Suðurlandi, lækna og hjúkrunarfræðinga lungnadeildar Landspítala og fleiri. Rannsóknin mun fyrst og fremst ná til þeirra sem orðið hafa fyrir hvað mestu öskufalli í námunda við eldstöðina undanfarnar vikur.

Markmiðið er að meta hugsanleg bráð heilsufarsleg áhrif gjóskunnar, gildi sóttvarnaráðstafana sem beitt hefur verið og hvort grípa þurfi til frekari ráðstafana.

Einnig er áætlað að meta langtímaáhrif öskufalls á heilsufar.

„Flestir virðast þola þetta ástand vel," segir Haraldur. „En þarna er einnig fólk með undir-liggjandi öndunarfæravanda sem þarf sérstakrar athygli við. Jafnframt eru svo sálræn vandamál sem búast má við að komi upp þegar fólk þarf að búa við aðstæður af þessu tagi. Þetta eru ekki stórir hópar, en það er sálfræðiþjónusta og áfallahjálp í boði fyrir þá sem á þurfa að halda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×