Innlent

Ráðuneytafrumvarp ekki lagt fram á vorþingi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Steingrímur J. Sigfússon gerir ekki ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram á yfirstandandi þingi.
Steingrímur J. Sigfússon gerir ekki ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram á yfirstandandi þingi.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, telur ólíklegt að frumvarp um fækkun og sameiningu ráðuneyta verði lagt fram á yfirstandandi vorþingi. Ríkisstjórnin megi þó ekki hlífa sjálfri sér við að ná fram hagræðingu.

Ríkisstjórnin afgreiddi í morgun frumvarp sem felur í sér sameiningu og fækkun ráðuneyta í samræmi við stjórnarsáttmálann.

Samkvæmt frumvarpinu verður til nýtt Velferðarráðuneyti með sameiningu heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis.

Iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið verða sameinuðu í eitt atvinnuvegaráðuneyti og þá breytist umhverfisráðuneytið í umhverfis og auðlindaráðuneytið. Ráðuneytum fækkar úr tólf í níu við þessar breytingar.

Þingflokkarnir fá nú frumvarpið til umfjöllunar en Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur lagt áherslu á að málið fái skjóta afgreiðslu. Nokkrir þingmenn vinstri grænna hafa hins vegar lýst yfir andstöðu við frumvarpið sérstaklega hvað varðar breytingar á sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu.

Steingrímur J. Sigfússon á ekki von á því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi fyrir sumarfrí.

„Það verður ekki afgreitt þetta mál fyrir sumar. Það er alveg augljóst. Við munum væntanlega kynna stöðu þess með einhverjum hætti og kynna hvernig við setjum það í áframhaldandi vinnu og skoðun og þá ekki síst hvernig við ætlum að haga samráði við þá sem að við eiga búa," segir hann.

Steingrímur segist skilja áhyggjur manna sem hafa gagnrýnt þessar breytingar.

„Um leið er það mikilvægt að stjórnarráðið og ríkisstjórnin hlífi ekki sjálfri sér við að ná hagræðingu. Og þora að endurskipuleggja málin á sama tíma og við erum að ætlast til þess alls staðar í rekstrinum og hjá öllum opinberum stofnunum. Þannig að ég held að sé ekkert sérstök samúð með því að það megi engu hreyfa innan stjórnarráðsins á þessum tímum," segir Steingrímur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×