Lífið

Tappað af Jakobi Frímanni

Jakob Frímann segist verða að vera sannfærður um að tímabært sé að senda frá sér ævisögu áður en til útgáfu komi. „Maður veit aldrei hvað gerist þegar maður sendir frá sér æviminningar.“
Jakob Frímann segist verða að vera sannfærður um að tímabært sé að senda frá sér ævisögu áður en til útgáfu komi. „Maður veit aldrei hvað gerist þegar maður sendir frá sér æviminningar.“

„Sennilega er viss skynsemi fólgin í því að tappa af mér áður en það fennir mikið yfir fortíðina,“ segir Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður og miðborgarstjóri, aðspurður en frést hefur að rithöfundurinn Þórunn E. Valdimarsdóttir hafi undanfarið rakið garnirnar úr Jakobi og fest á blað minningar hans frá litríkri ævi. Jakob tekur þó skýrt fram að fundir hans með Þórunni fari fram án skuldbindinga um útgáfu.

„Hvort og hvenær þessar minningar verða gefnar út er algjörlega látið liggja milli hluta, en Þórunn er hörkufínn rithöfundur sem hefur skrifað margar af bestu ævisögum Íslendinga,“ segir hann. „Óskum hennar um samtöl var því erfitt að svara öðruvísi en játandi.“

Ljóst er að eftirspurn eftir sögum Jakobs úr barnæsku, tónlistarbransanum, stjórnmálum og fleiru er fyrir hendi, til dæmis meðal poppfræðinga eins og Dr. Gunna, sem nýverið lét í ljós eindreginn áhuga á að lesa slíka bók.

„Mér hefur ætíð fundist það harðfullorðinna að senda frá sér æviminningar, en ég upplifi mig sem ungan mann sem er í raun nýbyrjaður. Mögulega helst það í hendur við það að ég á þriggja ára gamalt barn og mér yngri konu, en kannski heldur tónlistin mönnum síkeikum,“ segir Jakob og viðurkennir að efniviðurinn sé að líkindum nægur í góða bók.

„Mér líður stundum eins og ég hafi lifað mörg líf í nokkrum löndum. Þetta hefur oft verið skrautlegt og yfirleitt skemmtilegt.“- kg

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.