Innlent

Leikfélag Sólheima sýnir verk um ævi Sesselju

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Edda Björgvinsdóttir skrifaði leikritið sem Leikfélag Sólheima sýnir. Mynd/ Stefán.
Edda Björgvinsdóttir skrifaði leikritið sem Leikfélag Sólheima sýnir. Mynd/ Stefán.
Leikfélag Sólheima sýna um þessar mundir leikritið „Þar sem sólin á heima" eftir Eddu Björgvinsdóttur. Leikritið var frumsýnt á sumardaginn fyrsta og verður sýnt á Sólheimum um helgina. Hátíðarsýning verður svo í Þjóðleikhúsinu næstkomandi miðvikudag klukkan átta. Leikritið er um ævi Sesselju Sigmundsdóttur, stofnanda Sólheima, og er stiklað á stóru í lífshlaupi hennar.

Edda Björgvinsdóttir segir að það sé áttatíu ára hefð fyrir því að frumsýna leikrit á Sólheimum. „Við fengum tónlistarhöfund til þess að búa til yndislega tónlist. Við fengum Gerlu til að sjá um leikmynd og svo er Diddú gestasöngvari og leikari hjá okkur," segir Edda.

Edda er ákaflega stolt af leikfélaginu og hvernig til tókst. „Þetta leikfélag er svo fallegt af því að þetta er sama blöndun og í þorpinu. Það eru fatlaðir og ófatlaðir, Íslendingar og útlendingar, menn og dýr," segir Edda.

Leikritið er sýnt á Sólheimum klukkan þrjú á laugardag og sunnudag. Hátíðasýning verður svo í Þjóðleikhúsinu  þann 5. maí klukkan átta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×