Innlent

Á gjörgæslu eftir gasleka í Hellisheiðarvirkjun

Fjölmennt lögreglu- og slökkvilið ásamt sjúkrabílum og læknum voru send að Hellisheiðarvirkjun í nótt, eftir að þaðan barst beiðni um bráðaaðstoð. Þar varð einhverskonar gasleki laust fyrir klukkan fjögur, með þeim afleiðingum að tveir starfsmenn misstu meðvitund og féllu ofan af vinnupall, eða úr stiga, en sá þriðji komst út og kallaði á hjálp.

Lögreglumenn frá Selfossi komu fyrstir á vettvang og náðu öðrum manninum út, og slökkviliðsmenn úr Hveragerði náðu þeim síðari. Þeir voru þegar fluttir á slysadeild, en fleiri voru ekki í húsinu þegar gaslekinn varð. Þeir komust brátt til meðvitundar, en meiddust báðir við fallið og er annar á gjörgæsludeild með alvarlega áverka.

Ríkislögreglustjóri og slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sendu líka mannskap á vettvang. Ekki liggur fyrir hvaða gas þetta var, nema hvað það er hættulegt, og var húsnæðið loftræst að aðgerð lokinni. Lögreglurannsókn er hafinn á atburðinum auk þess sem Vinnueftirlitið mun rannsaka málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×