Innlent

Um 3700 ökumenn stöðvaðir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan stöðvaði 3700 ökumenn í desember. Mynd/ Valgarður.
Lögreglan stöðvaði 3700 ökumenn í desember. Mynd/ Valgarður.
Ríflega 3700 ökumenn voru stöðvaðir í sérstöku umferðareftirliti sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt úti í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra.

Af þeim voru 25 ökumenn handteknir grunaðir um ölvunarakstur og 26 til viðbótar var gert að hætta akstri sökum þess að þeir höfðu neytt áfengis en voru þó undir leyfilegum mörkum. Þrír ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Af þeim sem voru stöðvaðir reyndust 20 þegar hafa verið sviptir ökuleyfi.

Vegna eftirlitsins voru skráð alls 456 brot hjá lögreglu. Mestmegnis var um að ræða að ökumenn höfðu ökuskírteini ekki meðferðis eða að ljósabúnaði var ábótavant. Eftirlitinu var haldið úti bæði að nóttu og degi og á ýmsum stöðum í umdæminu.

Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru skráð 12 umferðaróhöpp vegna ölvunaraksturs í desembermánuði. Á sama tímabili árið 2008 voru þau hinsvegar 22 og því er um jákvæða þróun að ræða í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×