Innlent

Ráðherra þverneitar færslu hringvegarins

Skipulagið sem lagt var fram fól í sér að hringvegurinn til Víkur færi í gegnum jarðgöng í Reynisfjalli. Fréttablaðið/Heiða
Skipulagið sem lagt var fram fól í sér að hringvegurinn til Víkur færi í gegnum jarðgöng í Reynisfjalli. Fréttablaðið/Heiða
Umhverfisráðherra hafnaði fyrr í mánuðinum hugmyndum bæjaryfirvalda í Mýrdalshreppi um nýja veglínu þjóðvegar 1 um sveitarfélagið. Það er í samræmi við tillögur Skipulagsstofnunar, sem gerði athugasemd við að ekki hafi verið gerð úttekt á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda.

Í tillögu að aðalskipulagi hreppsins fyrir árin 2009 til 2025 var gert ráð fyrir að vegurinn yrði færður sunnar, allt niður að Dyrhólaósi, og þaðan í gegnum Reynishverfi, með göngum í gegnum Reynisfjall og þaðan í gegnum Víkurfjöru upp að Vík í Mýrdal.

Ráðherra samþykkti aðalskipulagið að öðru leyti, en tók undir tilmæli Skipulagsstofnunar um frestun á breytingu vegalínu. Skipulagsstofnun lagði til frestun sökum formgalla, en í áliti stofnunarinnar er sett út á að ekki hafi verið upplýst um áhrif vegarins á náttúru og sam­félag. Hins vegar tók ráðherra einnig tillit til þess að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti ógilti í júní ákvörðun sveitarstjórnar um tillögu að veglínu vegna vanhæfis eins af sveitarstjórnarmönnum sem stóðu að tillögunni.

Í skýrslu Skipulagsstofnunar segir að fyrir utan einstaklinga hafi ýmsar stofnanir og félagasamtök gert athugasemdir við fyrirhugaða legu vegarins út frá sjónar­miðum náttúruverndar. Dyrhólaey og Dyrhólaósar eru á Náttúruminjaskrá og segir í mati Umhverfisstofnunar að vernda eigi votlendið ofan við ósinn, einkum vegna mikilvægis þess fyrir fuglalíf á staðnum.

Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir í samtali við Fréttablaðið að þessi ákvörðun ráðherra hafi ekki komið á óvart. Hann bætir því við að mörg rök séu með því að velja veginum þessa leið, en meirihluti sveitarstjórnar hafi talið þennan kost bestan „með tilliti til umhverfissjónarmiða og landfræðilegra aðstæðna“.

Ásgeir segir sveitarstjórnina ætla að halda sínu striki. „Það er vilji sveitar­stjórnar að þessi veglína sé inni á skipulaginu og það verður unnið í því áfram.“

Sveitarstjórn tók málið fyrir á fundi á mánudag, en ákvað að fresta afgreiðslu skipulagsins. Þeir munu funda með lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélag í dag til að fara yfir lagalega hlið málsins.

Ekki er þess að vænta að vegurinn verði færður á næstunni, þar sem talsmaður Vegagerðarinnar segir enga vinnu þar í gangi varðandi breytingar á vegstæðinu. Þeir sjái ekkert þar sem kalli á breytingu á næstunni.thorgils@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×