Innlent

Embættismenn ræða Icesave en ekki samninganefndir

Hollendingar og Bretar hafa verið ófáanlegir til þess að setjast við samningaborðið vegna Icesave en kosningar eru nýafstaðnar í báðum löndunum. Þó eru enn þá samskipti í gangi að sögn Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra.

„Staðan er sú að það eru samskipti í gangi milli embættismanna og þráðurinn hefur ekki slitnað en það hefur gengið alveg ótrúlega erfiðlega að koma þessu lengra það, að koma þessu í alvöru viðræður," segir Steingrímur J. Sigfússon en nýr meirihluti hefur til að mynda tekið við í Bretlandi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins sagði í viðtali við Vísi í gær að hann tryði því að frjálslyndi demókratar hefðu meiri skilning á aðstæðum Íslendinga en Verkamannaflokkurinn. Ástæðan er meðal annars sú að Framsókn ræddi við Frjálslynda demókrata á síðasta ári.

Steingrímur segir vandamálið hinsvegar að fá Hollendinga og Breta að samningaborðinu. Svo virðist sem þeim liggi ekki á. Pressan á Íslendingum er hinsvegar talsvert meiri eftir að bráðabirgðarálit ESA, eftirlitsstofnunnar EFTA, kom fram, enda grillir í dómsmál fyrir EFTA-dómstólnum náist ekki samkomulag í deilunni.

„Það hefur þó staðið til síðustu vikuna til tíu dagana að hópur lögfræðinga settist niður til hliðar og færi í ákveðna vinnu en það hefur ekki komist í gang ennþá," segir Steingrímur um það litla sem þokast í átt að samningaviðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×