Innlent

Framtíð Sólheima í uppnámi: „Svona gerir maður ekki"

Framtíð Sólheima ræðst á næstu 60 dögum. Framkvæmdastjóri Sólheima segir duttlunga og vinnubrögð félagsmálaráðuneytisins setja velferð íbúanna, sem eru 43, í algjört uppnám.

Sólheimar hafa verið starfandi í 80 ár og er elsti þjónustuaðili við fatlað fólk á Íslandi. Þar búa 43 einstaklingar en nú eru breytingar í loftinu. Fyrirhugað er að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga um næstu áramót.

Framkvæmdastjórn og fulltrúaráð Sólheima telja að með breytingunum bresti grundvöllur fyrir starfi Sólheima. Ástæðan er sú að Sólheimar fara út af fjárlögum og þjónustusamningur sem ætti að flytjast yfir til sveitarfélagsins er einfaldlega ekki til. Raunar er komið vel á annað ár frá því að samningurinn rann úr gildi.

„Út af duttlungum og vinnubrögðum ráðuneytisins þá er líf og velferð þessara einstaklinga sett í fullkomið uppnám núna þegar 60 dagar eru þangað til þessi breyting á að eiga sér stað. Þetta er ekki hægt. Svona gerir maður ekki," segir Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima.

Að öllu óbreyttu er ekki nein trygging fyrir því að Sólheimar verði starfandi 1. janúar, að mati Guðmundar. Ennfremur segir hann: „Við erum ekki að biðja um meira. Við erum ekki að biðja um minna. Við erum bara að biðja um það að fólk fái sömu tryggingar og ríkið er tilbúið að veita sveitarfélögunum."




Tengdar fréttir

Sólheimar hugsanlega úr sögunni

Grundvöllur fyrir starfi Sólheima í Grímsnesi að málefnum fatlaðra gæti verið brostinn, segir í samþykkt fulltrúaráðs Sólheima frá því í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×