Lífið

Páskaopnun Hofsós-sundlaugar

Forsetafrúin Dorrit Moussaeiff tók fyrstu skóflustunguna að sundlauginni ásamt þeim Steinunni og Lilju.Fréttablaðið/GVA
Forsetafrúin Dorrit Moussaeiff tók fyrstu skóflustunguna að sundlauginni ásamt þeim Steinunni og Lilju.Fréttablaðið/GVA

„Við sjáum fram á að hún gæti verið komin í gagnið um páskana,“ segir Sveinbjörn Sigurðsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Sveinbjörn Sigurðsson. Starfsmenn fyrirtækisins hafa séð um að reisa sundlaugina á Hofsósi sem athafnakonurnar Steinunn Jónsdóttir og Lilja Pálmadóttir gáfu íbúum bæjarins fyrir tæpum þremur árum.

Upphaflega stóð til að sundlaugin yrði tilbúin um mánaðamótin nóvember/desember á síðasta ári og hún hefði því getað orðið ansi vegleg jólagjöf til Skagfirðinga. En eilitlar tafir urðu á verkinu, meðal annars vegna efnisskorts, og Skagfirðingar urðu því að bíða enn um sinn. „Þetta var allt leyst og það hefur allt staðið eins og stafur á bók í samskiptum okkar við þær,“ segir Sveinbjörn. Íbúar Hofsóss og nærsveitamenn bíða eflaust spenntir eftir því að geta stungið sér til sunds og setið í heitu pottunum og horft yfir til Drangeyjar, jafnvel látið sig dreyma um Drangeyjarsund. Og nú lítur allt út fyrir að þeir geti gert það um svipað leyti og páskarnir ganga í garð.

Það vakti mikla athygli á sínum tíma þegar þær Steinunn og Lilja skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að gefa íbúum Hofsóss sundlaug hinn 19. júní 2007. Dorrit Moussaeiff tók fyrstu skóflustunguna að sundlauginni ásamt þeim Steinunni og Lilju í apríl 2008 og í kjölfarið var hafist handa. Sundlaugin sjálf verður 25 metrar að lengd en innifalið í gjöfinni er vegleg þjónustumiðstöð. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×