Fótbolti

Thomas Müller flaug á hausinn á fjallahjóli en HM er ekki í hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Müller í besta færi Bayern í Meistaradeildinni.
Thomas Müller í besta færi Bayern í Meistaradeildinni. Mynd/GettyImages
Þeir eru seinheppnir landsliðsmenn Þjóðverja þessa dagana. Michael Ballack, Rene Adler og Christian Träsch missa allir af HM vegna meiðsla og Bayern-maðurinn Thomas Müller var næstum því búinn að slasa sig illa í hjólaslysi sem hefði getað kostað hann HM. Það fór þó betur en á horfist í fyrstu.

Thomas Müller datt illa á fjallahjóli en slapp með glóðarauga, nokkur spor í hökuna og marbletti á hnjánum. Hann slapp alveg við beinbrot og vöðvameiðsli og ætti því ekki að missa mikið úr undirbúningi liðsins fyrir HM.

Thomas Müller spilaði vel með Bayern Munchen í vetur og var lykilmaður í sóknarleik liðsins. Hann var með 13 mörk og 11 stoðsendingar í 34 leikjum í þýsku deildinni og 2 mörk og 3 stoðsendingar í 12 leikjum í Meistaradeildinni.

Müller var nýkominn til móts við landsliðið eins og aðrir félagar hans í Bayern Munchen en liðið var að spila í úrslitaleik Meistaradeildarinnar um helgina.

Thomas Müller og Holger Badstuber voru þarna að hjóla saman en Mario Gomez og Miroslav Klose tóku hinsvegar þátt í æfingu liðsins í æfingabúðunum í Suður-Týrol.

Jörg Butt, Philipp Lahm og Bastian Schweinsteiger komu síðastir til móts við þýska liðið eftir að hafa ferðast saman í bíl suður til Austurríkis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×