Innlent

Þúsund heimili með neikvæða eiginfjárstöðu vegna aðstoðar stjórnvalda

Hátt í eitt þúsund íslensk heimili hafa lent í neikvæðri eiginfjárstöðu vegna aðstoðar stjórnvalda við skuldsett heimili. Talsmaður samtaka lánþega segir aðgerðirnar létta greiðslubyrði tímabundið, en hneppi húsnæðiseigendur í fjötra.

Fleiri en 700 íslensk heimili búa við neikvæða eiginfjárstöðu vegna aðgerða stjórnvalda til að hjálpa heimilum í skuldavanda. Þetta skýrist af því að til dæmis frysting lána og greiðslujöfnun miða að því að lækka greiðslubyrði lána tímabundið með því að fresta greiðslum. Heildarkostnaður yfir lánstímann er því meiri en ella með þessum aðgerðum og íbúðaskuldir þessara heimila vaxa því umfram húsnæðiseignina.

Þetta mat kemur fram í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika Seðlabankans. Þar segir að tæp 40 prósent skuldugra heimila skuldi meira en þau eiga í húsnæði, eða um 28.300 heimili, en búist er við að staðan muni áfram versna. Ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða væru þau færri, eða innan við 27.600.

Guðmundur Andri Skúlason, talsmaður samtaka lánþega, segir alvarlegt fyrir heimili að lenda í neikvæðri eiginfjárstöðu.

Samkvæmt mati Seðlabankans hafa aðgerðirnar þó komið um fimm þúsund heimilum í viðráðanlega stöðu til greiðslu lána og framfærslu. Það segir Guðmundur Andri skammgóðan vermi.

Hann segir að hægt hefði verið að komast hjá þessari hliðarverkun á eiginfjárstöðu heimilanna með því að afskrifa af skuldum heimilanna strax og gera skuldastöðuna viðráðanlega í upphafi, og þykir aðgerðir stjórnvalda ganga of skammt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×