Innlent

Plægja þarf hundrað hektara túns

Öskufall Hefur leikið margar jarðir undir Eyjafjöllum illa.
Öskufall Hefur leikið margar jarðir undir Eyjafjöllum illa.

Tæpir sextíu hektarar túns á Önundarhorni, sem lentu undir aurflóðinu af völdum gossins í Eyjafjallajökli á dögunum, eru ónýtir. Plægja þarf þá upp aftur, að sögn Sigurðar Þórs Þórhallssonar bónda á jörðinni. Hinn hluti túnsins, á fimmta tug hektara, liggur undir ösku. Sigurður telur að þann hluta þurfi einnig að plægja og sá í til að losna við öskuryk sem ella myndi þyrlast upp og setjast í heyið í sumar. Hann telur að einhver heyfengur fáist af túnunum, en ljóst sé að hann verði að kaupa hey til viðbótar.

Rúm vika er nú síðan koldimmu gosöskufalli linnti á jörðinni.

„Við erum nýlega byrjaðir að keyra drullunni burt, sem rann yfir jörðina í aurflóðinu á dögunum,“ segir Sigurður. „Sú vinna gæti tekið allt að sjö daga. Eftir það held ég að maður verði að taka stöðuna, meðal annars með tilliti til hættu á frekara öskufalli.“

Sigurður er með kúabú. Kýrnar kveðst hann ef til vill geta sett út í júní, á grænfóður og hey, en hina nautgripina alls ekki í sumar. Hey verði hann að kaupa með vorinu.

„En það er ótrúlegt hvað margir nær og fjær eru boðnir og búnir til að aðstoða við hreinsunina,“ segir Sigurður og kveður það ómetanlegan stuðning.-jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×