Innlent

Styður upptöku eigna auðmanna

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir eignaupptöku á eignum auðmanna ekki vafamál í huga félaga stéttafélagsins í ræðu sinni á Austurvelli sem hún hélt þriðja tímanum í dag. Hún segir ennfremur að það sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að búa slíkri eignaupptöku, sem hluta af sáttargjörð í samfélaginu, viðeigandi lagagrundvöll.

Fyrirheit stjórnvalda um að krefjast bóta frá þeim sem valdið hafa skaða verða að ganga eftir- það er krafa samfélagsins, sagði Elín í ræðu sinni.

Þá sagði Elín Björg það kröfu BSRB að velferðarkerfinu verði aldrei fórnað. Hún hvatti svo til samstöðu líkt og finna mátti þegar sjálfboðaliðar komu bændum undir Eyjafjallajökli til aðstoðar á dögunum.

„Þessi sami samstöðuandi þarf að finna sér leið inn í stjórnmálin - því bankahrunið er ígildi náttúruhamfara. Af hverju sýna þingmenn og stjórnvöld ekki sama skilning og almenningur sýnir fólkinu á hamfarasvæðinu ? Þjappa sér saman og sameinast um það sem máli skiptir. Þannig erum við vön að bregðast við þegar að stór áföll dynja yfir," sagði Elín.

Að lokum krafðist hún að fjárlagahalli ríkisins næstu ár kæmu ekki niður á grunnþjónustu samfélagsins.

„Frá þeirri kröfu verður ekki hvikað," voru lokaorð Elínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×