Innlent

Íslenskur sérfræðingur á leið til Haítí

Birna er á leið til Haítí. Fyrir í landinu eru þrír íslenskir hjálparstarfsmenn á vegum Rauða kross Íslands.
Birna er á leið til Haítí. Fyrir í landinu eru þrír íslenskir hjálparstarfsmenn á vegum Rauða kross Íslands.
Birna Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Rauða kross Íslands, hélt til Haítí í dag. Þar mun hún starfa með finnskri og franskri sveit við dreifingu hjálpargagna Alþjóða Rauða krossins. Fyrir í Haítí eru þrír íslenskir hjálparstarfsmenn.

Birna er mannfræðingur og fram kemur í tilkynningu að hún hefur langa reynslu af störfum fyrir Rauða kross Íslands, bæði á landskrifstofu og við alþjóðleg neyðarverkefni. Síðast starfaði Birna í Malaví þar sem hún vann við að skipuleggja og útfæra verkefni til að tryggja fæðuframboð fyrir skjólstæðinga malavíska Rauða krossins. Árið 2005 vann hún í Aceh á Súmötru í Indónesíu þar sem hún stýrði dreifingu hjálpargagna eftir flóðbylgjuna miklu. Áður hefur hún unnið í Suður-Súdan, Sómalíu og Kenía.

Núna eru þrír aðrir sendifulltrúar Rauða kross Íslands að störfum á Haítí. Það eru þau Valgerður Grímsdóttir og Sigurjón Valmundsson, sem starfa við tjaldsjúkrahús norska Rauða krossins í Petit Goave, og Kristjón Þorkelsson sem er margreyndur hjálparstarfsmaður á sviði vatnshreinsimála.

Frá því að jarðskjálftinn reið yfir um miðjan janúar hefur Rauði kross Íslands nú alls sent 15 sendifulltrúa til margvíslegra starfa á Haítí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×