Innlent

Hámarks refsing fyrir brot ráðherra er tveggja ára fangelsi

Heimir Már Pétursson skrifar

Hámarks refsing fyrir brot ráðherra í starfi er tveggja ára fangelsi. Embættismenn sem hljóta dóm geta búist við tvöfaldri refsingu miðað við það sem gengur og gerist. Formaður þingnefndar sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar segir að málefni þriggja fyrrverandi ráðherra verði í forgangi hjá nefndinni.

Þingmannanefnd sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hélt sinn fyrsta fund eftir útkomu skýrslunnar í morgun. Nefndinni er ætlað að leggja fram tillögur um lagabreytingar sem hún telur nauðsynlegar í tengslum við niðurstöður skýrslunnar. Þá ákveður nefndin hvort Alþingi leggi fram ákæru á hendur þeim þremur fyrrverandi ráðherrum sem rannsóknarnefndin segir að sýnt hafi vanrækslu í störfum sínum.

Ef nefndin ákveður að ákæra eigi ráðherrana fyrrverandi leggur hún fram þingsályktunartillögu sem inniheldur ákæruna.

Ekki er útilokað að ríkissaksóknari eða embætti sérstaks saksóknara taki mál seðlabankastjóranna fyrrverandi og fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins fyrir.

Ef vanræksla sú sem rannsóknarnefndin telur þá hafa sýnt leiðir til dóms, þá eru lög um opinbera starfsmenn þannig að dæma má þá til tvöfaldrar refsingar sem almennt gilda í hegningarlögum. Auk þess gætu skaðabótakröfur verið lagðar fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×