Innlent

Kominn með nokkrar hænur

Júlíus á tjörn Á þriðja hundrað fuglar drapst þegar stærsta landnámshænsnabú landsins brann til kaldra kola í lok mars.
Júlíus á tjörn Á þriðja hundrað fuglar drapst þegar stærsta landnámshænsnabú landsins brann til kaldra kola í lok mars.

landbúnaður Júlíus Már Baldursson, landnámshænsnabóndi á Tjörn í Vatnsnesi, hefur tekið fyrstu skrefin í að byggja upp stofninn sem hann glataði þegar á þriðja hundrað landnámshænsn drapst í eldsvoða 30. mars síðastliðinn. Tíu hanar komust af og nú hefur Júlíus bætt nokkrum pútum við.

„Ég hef tekið að mér nokkrar pútur frá þremur einstaklingum sem þeir ætluðu að losa sig við. Ég tímdi ekki að láta þær falla. En þetta er bara sýnishorn, nú bíð ég eftir að geta byrjað á fullu og komið stofninum í fyrra horf.“

Tjörn er ríkisjörð og bíður Júlíus nú eftir svörum frá landbúnaðarráðuneytinu um hvort húsin sem brunnu verða endurreist eða hvort peningarnir verði notaðir til að gera upp eldri fjárhús á jörðinni, sem gætu nýst fyrir hænurnar.

„Ég vona að það verði skorið úr um það fljótlega,“ segir Júlíus. „Aðaláherslan núna er að laga skemmdirnar sem urðu á íbúðarhúsinu og endurreisa tengibygginguna við það. Það er búið að fjarlægja brunarústirnar og leggja möl yfir.“

Það eru því enn að minnsta kosti nokkurra vikna bið þar til fólk getur farið að panta landnámsegg og unga frá Tjörn í Vatnsnesi á nýjan leik. „En þegar þetta fer af stað af fullum krafti ætti þetta að ganga hratt fyrir sig.“ - bs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×