Innlent

Björgunarsveitarmenn slá upp búðum á Morinsheiði

Ljósmyndarinn Haukur Snorrason tók þessar myndir í morgun. Þær sýna nýju sprunguna.
Ljósmyndarinn Haukur Snorrason tók þessar myndir í morgun. Þær sýna nýju sprunguna. Mynd/Haukur Snorrason

Um fimmtíu björgunarsveitamenn og lögregluþjónar vakta svæðið í kringum eldgosið í dag en að sögn formanns Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, Svans S. Lárussonar, verða settar upp búðir á Morinsheiði þar sem björgunarsveitarmenn verða.

Þar munu þeir standa vaktina þangað til á mánudaginn en búist er við talsverðum ferðamannastraumi yfir páskahelgina.

Gosið tók umtalsverðum breytingum í gærkvöldi þegar ný sprunga myndaðist. Hún er um 300 metrar. Þá þurfti að flytja um 50 manns með þyrlu af svæðinu.

Almannavarnarnefnd fundaði svo í morgun um stöðu mála. Þar var sú ákvörðun tekin að opna aftur leiðir inn í Þórsmörk og gönguleiðina upp Fimmvörðuhálsinn. Hinsvegar má ekki aka á jöklunum í kring nema á sérútbúnum bílum auk þess sem fólki er ráðlagt að vera í kílómetra fjarlægð frá gosinu.

Svanur segir björgunarstarf hafa gengið mjög vel í gærkvöldi. Hann segir aðstæður lítið breyttar og viðbúnaður svipaður og áður fyrir utan að almenningi er gert að halda sig í meiri fjarlægð frá gosinu en áður. Svanur beinir því svo til ferðalanga að virða takmarkanir almannavarnanefndar. Annað geti orðið stórhættulegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×