Innlent

Bæjarstjóri Akraness hafnar lögbroti

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Bæjarstjóri Akraness hafnar því að bærinn hafi brotið lög vegna samnings sem gerður var við fyrirtæki í eigu sonar forseta bæjarstjórnar. Kærunefnd útboðsmála telur bæinn hafa brotið lög, en hefur ekki heimild til að ógilda samninginn.

Akraneskaupstaður samdi á síðasta ári við fyrirtækið Securstore um tölvuþjónustu án útboðs. Þetta þótti nokkuð umdeilt þar sem fyrirtækinu er stýrt af og er að hluta í eigu Arnars Gunnarssonar, en hann er sonur Gunnar Sigurðssonar, forseta bæjarstjórnar Akraness.

Tekjur fyrirtækisins af viðskiptum við Akranes námu tæplega 25 milljónum króna á árinu 2008 og sextán milljónum króna fyrstu tíu mánuði ársins 2009. Á þessu tímabili fékk fyrirtæki sonarins semsagt rúmlega fjörutíu milljónir króna í tekjur frá bænum.

Átján mánaða samningur sem bærinn gerði við fyrirtækið í fyrra var kærður til kærunefndar útboðsmála. Í nýföllnum úrskurði sínum kemst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að Akraneskaupstaður hafi brotið lög. En þar segir:

"Með vísun til þess sem fyrr er rakið telur kærunefnd að kærði hafi ekki farið að lögum er hann stofnaði til samnings við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf. án undangengins útboðs."

Kærunefndin telur sig hins vegar ekki hafa heimildir að lögum til að ógilda samninginn, þar sem í lögum um opinber innkaup kemur fram að ekki sé hægt að fella samning úr gildi, eftir að bindandi samningur er kominn á í skilningi laganna, þótt gerð hans hafi verið ólögmæt.

Gísli Einarsson, bæjarstjóri Akraness, sagði í samtali við fréttastofu að bæjarstjórn væri því hreinlega ósammála að hún hafi ekki farið að lögum, þrátt fyrir niðurstöðu kærunefndar útboðsmála.

"Ég hafna því að bærinn hafi brotið lög," sagði hann og vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti. Akraneskaupstaður ætlar ekki að endurskoða samninginn við Securstore.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×