Fótbolti

Varamaðurinn Valbuena tryggði Frökkum sigur í sínum fyrsta landsleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathieu Valbuena fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Mathieu Valbuena fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Mynd/AP
Varamaðurinn Mathieu Valbuena skoraði sigurmark Frakka í 2-1 sigri á Kosta Ríka í kvöld í undirbúningsleik fyrir HM. Raymond Domenech, þjálfari franska landsliðsins, brást við brotthvarfi Lassana Diarra með því að breyta um leikaðferð.

Kosta Ríka komst i 1-0 með marki Carlos Hernandez strax á 12. mínútu en Mið-Ameríkuríkið var mjög nálægt því að komast á HM. Liðið tapaði í umspilsleikjum á móti Úrúgvæ.

Franck Ribery jafnaði leikinn á 22. mínútu þegar fyrirgjöf hans frá vinstri kanti fór alla leið í markið eftir viðkomu við varnarmanni. Sigurmark Mathieu Valbuena kom síðan á 83. mínútu leiksins eftir sendingu frá Riberry.

Mathieu Valbuena er 25 ára miðjumaður hjá nýkrýndum Frakklandsmeisturum Marseille og þetta var hans fyrsti landsleikur. Hann kom inn á fyrir Sidney Govou þegar 25 mínútur voru eftir af leiknum.

Raymond Domenech, þjálfari Frakka, stillti nú upp í 4-3-3 leikaðferð í staðinn fyrir að leika 4-2-3-1 (4-5-1). Lassana Diarra lék alltaf sem afturliggjandi miðjumaður með Jeremy Toulalan en nú var Toulalan á þriggja manna miðju með þeim Yoann Gourcuff (Bordeaux) og Florent Malouda (Chelsea).

Þriggja manna framlínan var síðan skipuð þeim Sidney Govou, Nicolas Anelka og Franck Ribery en í vörninni voru þeir Bacary Sagna, Eric Abidal, William Gallas og Patrice Evra. Thierry Henry kom inn á fyrir Anelka í hálfleik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×