Innlent

Árni Páll: Millistéttin gæti þurrkast út

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. Mynd/Anton Brink
Millistéttin á Íslandi mun þurrkast út og ungt fólk flýja land ef því verður gert að borga svimandi háa skatta til að fjármagna almenna niðurfærslu skulda. Þetta segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Sérfræðihópur á vegum ríkisstjórnarinnar hefur unnið að því undanfarnar vikur að reikna út mögulegar leiðir til að taka á skuldavanda heimilinna. Tillögurnar verða væntanlega kynntar síðar í vikunni.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar, að millistéttinn á Íslandi muni þurrkast út ef ekki verður farið í almennar niðurfellingar á skuldum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggst gegn þessari hugmynd og telur vænlegast að hjálpa eingöngu þeim sem þegar eru komnir í þrot.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að almenn niðurfærsla komi ekki til greina ef almenningur á að borga reikninginn.

„Ef að almenn niðurfærsla á að greiðast af almenningi í landinu. þá er það ekki skynsamleg leið. Það hefur alltaf legið fyrir. Það er ekki eðlileg tilfærsla ef að við þurfum að hækka skatta og reka ríkissjóð með gríðarlegu tapi til að fjármagna slíka niðurfærslu. Ég held að það skilji allir," segir Árni Páll.

Íbúðalánsjóður og lífeyrissjóðirnir taka stærsta skellinn ef farið verður í almennar niðurfærslur.

„Millistéttin á Íslandi þurrkast út ef hún þarf að borga miklu hærri skatta um næstu áratugi til að borga fyrir niðurfellingu sem að skilar takmörkuðum árangri. Það er líka alveg ljóst að ungt fólk mun flýja land ef þess bíður hér að borga svimandi háa skatta til að fjármagna eignamyndun hjá kynslóðunum sem á undan fóru," segir Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×