Lífið

Engin plata frá Sigur Rós

Hljómsveitin Sigur Rós ætlar ekki að gefa út nýja plötu á þessu ári.fréttablaðið/gva
Hljómsveitin Sigur Rós ætlar ekki að gefa út nýja plötu á þessu ári.fréttablaðið/gva

Söngvarinn Jón Þór Birgisson hefur látið hafa eftir sér í erlendum fréttamiðlum að Sigur Rós sé á leiðinni í frí um óákveðinn tíma. Ástæðurnar eru tvær: annars vegar barneignir trommarans Orra Páls Dýrasonar og bassaleikarans Georgs Holms og hins vegar sólóplata Jónsa, sem hann ætlar að fylgja eftir með tónleikaferð um heiminn. Georg staðfestir í samtali við Fréttablaðið að ný plata frá sveitinni komi ekki út á þessu ári. „Við erum alveg í rólegheitum enda allir uppteknir. Þegar við höfum tíma hittumst við og semjum og gerum eitthvað,“ segir bassaleikarinn sem eignaðist sína þriðju stúlku í október. Orri Páll eignaðist aftur á móti strák síðastliðinn laugardag.

Samkvæmt Georg er lítið til af fullkláruðum Sigur Rósar-lögum á lager. „Við erum í því ferli að semja í rólegheitunum. Við erum komnir með hugmyndir og grunna en í rauninni erum við ekkert að flýta okkur að klára, enda ætlum við ekkert að taka upp strax. Jónsi er upptekinn núna með sitt verkefni. Við ætlum að leyfa honum að gera það og svo förum við í einhvern gír eftir það.“

Hvernig líkar þér við nýju lögin hans Jónsa? „Ég er reyndar bara búinn að heyra þetta lag sem er búið að spila í útvarpinu. Hann hefur ekki ennþá leyft mér að heyra hitt. Ég veit ekki hvort hann er spéhræddur og þorir ekki að leyfa okkur að heyra,“ segir hann og hlær. „En lagið sem ég hef heyrt er rosaflott og mjög mikið hann. Það fer ekki á milli mála að þetta lag er eftir hann.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.