Lífið

Lífið er hálfgert ættarmót

Finnst hugmyndin um allsherjar ættarmót, að við séum í grunninn öll af sömu ættinni, góð líking fyrir lífið. Fréttablaðið/Stefán
Finnst hugmyndin um allsherjar ættarmót, að við séum í grunninn öll af sömu ættinni, góð líking fyrir lífið. Fréttablaðið/Stefán
Ljóð af ættarmóti nefnist sjötta ljóðabók Antons Helga Jónssonar, sem kom út í vikunni. Í bókinni heyrum við raddir fólks á ættarmóti, þar sem það ýmist fagnar ættingjum, rifjar upp liðna tíð eða engist af samviskubiti.

„Og hvað er að frétta af honum þarna…?“ segir í einu af ættarmótsljóðum Antons Helga Jónssonar. Betur er vart hægt að lýsa íslensku ættarmóti; þessum sérstæðu samkomum niðja sem þekkjast oft lítið sem ekki neitt.

„Ég man ekki hvenær mér datt upphaflega í hug að skrifa um ættarmót,“ segir Anton Helgi. „En ég er hrifinn af hugmyndinni um að við séum öll skyld, í grunninn öll af sömu ættinni. Mér finnst það ágæt líking fyrir lífið.“

Anton Helgi lagði fyrstu drög að bókinni fyrir tíu árum og hafði hugsað sér að skrifa mun ítarlegri lýsingu á því sem gerðist á ættarmóti út í sveit.

„Ég gafst síðan upp á því, fannst það ekki nógu spennandi. Síðan gerði ég nokkrar atlögur að þessari hugmynd aftur og eftir því sem ég skar lýsingarnar meira niður, því betri fannst mér útkoman. Það sem eftir stendur er eins konar stemning, þar sem maður skynjar ættarmótið án þess að því sé lýst beint, og finnur um leið skírskotanir í svo margt fleira.“

Forlagið gefur út Ljóð á ættarmóti, sem er sjötta ljóðabók Antons Helga. Sú síðasta kom út 2006 en í fyrra hlaut hann Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið „Einsöngur án undirleiks“.

Svo skemmtilega vill til að höfundur ættarmótaljóðanna er ekki eina skáldið í fjölskyldunni; sonur Antons Helga, Valur Brynjar, hefur líka gefið út ljóðabækur.

„Hann hefur lesið eftir mig og hjálpað mér talsvert, sem og bræður hans báðir. Ég hef ætíð haft mikið gagn af þeim sem yfirlesurum og hvatningu.“

bergsteinn@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.