Lífið

Síðasta vígi reykingafólks fellur

Helgi ætlar að beita ýmsum aðferðum við að hætta að reykja.
Helgi ætlar að beita ýmsum aðferðum við að hætta að reykja.
„Ég er að velta því fyrir mér að íhuga að hætta að reykja," segir sjónvarpsmaðurinn Helgi Seljan.

Nafn Helga hefur oft komið upp í samhengi við umræður um reykingar. Unnið hefur verið að því kerfisbundið síðustu ár að fækka opinberum stöðum sem leyfa reykingar og ef Helgi hættir mætti segja að síðasta vígi reykingafólks sé að falla.

„Ég ætla að gera alvöru úr þessu, ég nenni þessu helvíti ekki lengur. Ég hef ekki samvisku í að vera að reykja matarpeninga fjölskyldunnar lengur," segir Helgi harðákveðinn. „Ég veit ekki hvort Viceroy-fyrirtækið sé búið að gefa út afkomuviðvörun. Þeir ættu kannski að gera það."

Ýmsar aðferðir eru í boði fyrir fólk sem vill hætta að reykja. Alls kyns nikótínvörur, sjálfshjálparbækur og jafnvel dáleiðsla. Helgi reiknar greinilega með harðri baráttu þar sem hann hyggst nota allar aðferðirnar í einu. „Ég hugsa að það kæmi ágætlega út," segir hann.

Það er skap í Helga, en það hefur hingað til verið ein af ástæðunum fyrir því að hann hefur haldið áfram að sjúga hvítu vindlingana. „Ég verð örugglega ekki eins og sól í heiði fyrst um sinn," viðurkennir Helgi, sem dvelur á Akureyri þessa dagana og býst við að hreina loftið fyrir norðan hjálpi til. „Hér ekki sérstaklega gert ráð fyrir því að fólk reyki," segir Helgi. „Þetta er klárlega ekki eins neyslutengt umhverfi eins og Reykjavík. Fyrir mér er Reykjavíkurborg eins og stór öskubakki. Akureyri er það ekki." - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.