Innlent

Kópavogsdagar hófust í dag

Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri Kópavogs, opnaði sýninguna formlega.
Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri Kópavogs, opnaði sýninguna formlega.
Kópavogsdagar, árleg menningarhátíð Kópavogsbæjar, hófust í dag með opnun sýningarinnar, Fúsi á ýmsa vegu, sem sett hefur verið upp í Tónlistarsafni Íslands á Kópavogsholti til heiðurs listamanninum Sigfúsi Halldórssyni.

Í tilkynningu segir að Kópavogsdagar séu í ár sérstaklega tileinkaðir Sigfúsi en hann hefði orðið 90 ára í haust. Sigfús bjó í Kópavogi í áratugi, hann er fyrsti heiðurslistamaður bæjarins og þriðji heiðursborgarinn.

„Á sýningunni Fúsi á ýmsa vegu má finna ýmsa persónulega muni listamannsins, svo sem bréf, teikningar og ljósmyndir, sem aldrei áður hafa komið fyrir sjónir almennings. Sýningin var unnin í nánu samstarfi við börn Sigfúsar," segir ennfremur.

Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri Kópavogs, opnaði sýninguna formlega og Sigurrós Þorgrímsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogs, ýtti Kópavogsdögum úr vör. „Menningarhátíðin stendur yfir til 15. maí en þá daga verða í boði hátt í tvö hundruð menningarviðburðir. Ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi," segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×