Fótbolti

Hólmfríður og félagar komnar upp í 2. sætið eftir sigur í Chicago

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður á landsliðsæfingu á EM í Finnlandi.
Hólmfríður á landsliðsæfingu á EM í Finnlandi. Mynd/Ossi Ahola
Hólmfríður Magnúsdóttir og félagar í Philadelphia Independence eru komnar upp í 2. sætið í bandarísku atvinnumannadeildinni eftir 1-0 útisigur á Chicago Red Stars í nótt.

Hólmfríður kom inn á sem varamaður fyrir sænsku landsliðskonuna Caroline Seger á 73. mínútu í leiknum en Hólmfríður hafði spilað allar 90 mínúturnar í fyrstu fimm leikjunum. Sigurmark Joanna Lohman kom strax á 7. mínútu leiksins en Hólmfríður kom grimm inn á og fiskaði meðal annars eitt gult spjald á leikmenn Chicago.

Philadelphia Independence hefur fengið 11 stig úr úr fyrstu 6 leikjum sínum en sigurinn í nótt var sá þriðji á tímabilinu. Philadelphia er fjórum stigum á eftir toppliði FC Gold Pride.

Philadelphia-liðið hafði tapað fyrir Saint Louis Athletica í síðasta leik en þetta var engu að síður þriðji sigur liðsins í síðustu fjórum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×