Innlent

20 milljónir aukalega í skapandi sumarstörf

Borgarráð samþykkti í dag tillögu Vinstri grænna um 20 milljónia króna aukafjárveitingu til skapandi sumarstarfa á vegum Hins hússins.

Með framlaginu verður hægt að fjölga starfsmönnum við skapandi sumarstörf um 70 eða úr 40 í 110 talsins í sumar að því er fram kemur í tilkynningu. „Áhersla verður lögð á að veita 17 ára ungmennum vinnu þar sem atvinnuleysi í þeim aldurshópi er mikið," segir ennfremur.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir frramtakið enn einn liðinn í því að tryggja sem flestum ungum Reykvíkingum verkefni við hæfi í sumar. „Með því gefst fleiri ungmennum tækifæri til að takast á við spennandi verkefni sem munu auðga mannlífið í borginni í sumar."

Auk áðurnefndra 110 starfsmanna ræður Reykjavíkurborg um 1.500 manns til sérstakra sumarstarfa, hefðbundinna afleysinga og atvinnuátaksverkefna í sumar. Jafnframt er áætlað að um 3.100 unglingar á aldrinum 13 til 15 ára starfi á vegum Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar. Þá segir að störf ungs fólks við götuleikhús og skapandi sumarhópa hafi lífgað upp á mannlífið í miðborginni og víðar um borgina á liðnum sumrum. „Skapandi sumarhópar hafa tekið þátt í hátíðum á borð við þjóðhátíð, Menningarnótt og Björtu Reykjavík og aðstoðað ferðamenn í miðborginni. Með fjárveitingunni skapast svigrúm fyrir fleiri einstaklinga í þessum eftirsóttu og mikilvægu störfum fyrir ungt fólk í Reykjavík. Að sama skapi verður fjármagnið nýtt til að lengja starfstíma þeirra verkefna sem þörf er á til að efla og styrkja ferðaþjónustu í Reykjavík."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×