Innlent

Brot staðfest en sekt lækkuð

Forsvarsmenn Símans meta hvort tilefni er til frekari málarekstrar. 
fréttablaðið/vilhelm
Forsvarsmenn Símans meta hvort tilefni er til frekari málarekstrar. fréttablaðið/vilhelm

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins (SE) að Síminn hafi brotið samkeppnislög gagnvart fjarskipta­fyrirtækinu TSC. Hins vegar lækkar áfrýjunarnefndin sektina sem Samkeppniseftirlitið gerði Símanum upphaflega að greiða úr 150 milljónum í 50 milljónir.

Fyrirtækin starfa bæði á markaði fyrir sölu á internettengingum og internetþjónustu. TSC kvartaði til Samkeppniseftirlitsins í byrjun maí 2007 og taldi að fyrirtækið hefði misst viðskiptavini í kjölfar samruna Símans og Íslenska sjónvarpsfélagsins sem rekur Skjá einn. Taldi TSC að Síminn hefði boðið þeim sem keyptu tengingu hjá fyrirtækinu sjónvarp um internetið án endurgjalds.

Samkeppniseftirlitið komst upphaflega að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði ekki farið eftir skilyrðum sem sett voru við samruna fyrirtækisins og Íslenska sjónvarpsfélagsins árið 2005. Áfrýjunarnefndin tekur undir þá afstöðu og telur það hafa verið neytendum til tjóns.

Rök áfrýjunarnefndarinnar fyrir því að lækka sektina er versnandi fjárhagsafkoma Símans og að hugsanlegir tæknilegir annmarkar hafi átt þátt í hluta brotsins. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×