Innlent

Hraunið fossar niður í Hrunagil

Gosið á Fimmvörðuhálsi. Mynd/ Anton.
Gosið á Fimmvörðuhálsi. Mynd/ Anton.

Mikið hraunrennsli hefur verið niður í Hrunagil í morgun frá eldstöðinni á Fimmvörðuhálsi og sjást miklar gufusprengingar reglulega ofan í gilinu sem senda stóra gufubólstra hátt til himins. Mikill kraftur er enn í gosinu.

Hraunrennsli frá gígnum hefur reyndar verið bæði niður í Hvannárgil og Hrunagil en síðustu klukkustundir mun meira niður í Hrunagil en þaðan stíga nú upp miklir gufubólstrar hátt til himins. Þar niðri sjást sprengingar af og til og er greinilegt að aska er einnig í bólstrunum. Fólk þarf því að gæta varúðar á gilbörmunum því það hefur sýnt sig að sprengingarnar geta sent stóra hraunhnullunga upp úr giljunum, og umferð inn í þau úr Þórsmörk er bönnuð vegna eiturhættu.

Töluvertur kraftur er í gosinu og gígurinn þeytir enn myndarlegum gosstrókum yfir eitthundrað metra til himins. Gosstrókarnir eru nú vart nema einn til tveir talsins, en fyrir helgi voru þeir fjórir til fimm og fyrstu gosdaginn tólf til fjórtán. Upphaflega gossprungan er þanng að mestu búin að breytast í einn til tvo gíga sem þegar hafa byggt upp yfir 200 metra hátt fjall.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur sagði í morgun að gosið hefði haldið sama krafti síðustu daga eftir að örlítið dró úr því á mánudag. Í sama streng tók Gunnar Guðmundsson jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni nú laust fyrir hádegi. Skjálftarnir nú væru eitthvað færri en á fyrstu dögum gossins og minni gosórói en hann væri þó stöðugur.

Þess má geta að þau Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Steinunn Jakobsdóttir jarðeðlisfræðingur munu á fræðslukvöldi Ferðafélags Íslands í kvöld fjalla ítarlega um eldgosið á Fimmvörðuhálsi og spá í líklega framvindu gossins. Fræðslukvöldið verður í Mörkinni 6 í Reykjavík og hefst kl 20.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×