Innlent

Gefur 230 tonn af vatni til Haítí

Jón Ólafsson.
Jón Ólafsson.

Hjálparstarf Jón Ólafsson, eigandi vatnframleiðandans Icelandic Glacial, hefur gefið 230 tonn af vatni á 400 þúsund flöskum til þeirra sem eiga um sárt að binda á hamfarasvæðunum á Haítí.

Með aðstoð Eimskips komst Jón í samband við Bandaríkjaher, sem flytur vatnið sjóleiðina frá Richmond í Virginíuríki í Bandaríkjunum og er áætlað að það berist til Haítí í dag. Alls 220 tonn fara með skipinu en í gær fóru tíu tonn með flugi frá Kaliforníu. Verðmæti vatnsins er rétt innan við hálf milljón dollara, eða jafnvirði rúmra sextíu milljóna íslenskra króna.

Jón segir að ekkert sé mikilvægara en vatn í aðstæðum sem þessum, þar á eftir komi matur og lyf.

„Það segir sig sjálft að okkur er ljúft og skylt að gera það sem við getum til að hjálpa," segir Jón. „Allir sem geta gert eitthvað eiga að gera það." Þó sé ljóst að vatnstonnin 230 séu bara dropi í hafið.

Jón segir að hann hafi ákveðið þetta eftir að hafa heyrt í félaga sínum sem rekur fyrirtæki á Haíti. „Hann hafði bara fundið 20 prósent af sínum starfsmönnum og þeir höfðu allir misst heimili sín," segir Jón.

Hann lét því til sín taka í gegnum hliðarverkefni sitt, sjálfseignarstofnunina Icelandic Glacial Water for Life, sem ætlað er að hjálpa við aðstæður sem þessar.

- sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×