Lífið

Cruise snýr aftur sem Ethan Hunt

Fjórða Mission: Impossible-myndin er á leiðinni og að sjálfsögðu er Cruise í aðalhlutverkinu.
Fjórða Mission: Impossible-myndin er á leiðinni og að sjálfsögðu er Cruise í aðalhlutverkinu.
Tom Cruise hefur samþykkt að leika njósnarann Ethan Hunt í fjórðu Mission:Impossible-myndinni. Hún verður frumsýnd í maí á næsta ári, á sama tíma og framhald gamanmyndarinnar Hangover og einni viku eftir frumsýningu Pirates of the Caribbean 4.

Myndin verður gerð eftir handriti Josh Applebaum og Andre Nemec og framleiðendur verða Cruise og J.J. Abrams. Sá síðarnefndi leikstýrði síðustu Mission-mynd en verður ekki við stjórnvölinn í þetta sinn. Enn á eftir að ákveða hver tekur við af honum.

Athygli vekur að myndin kemur út á vegum Paramount, sem rifti samningi sínum við Cruise eftir að Mission: Impossible III kom út. Launakröfur stjörnunnar þóttu alltof háar og lauk þar með fjórtán ára samstarfi Paramount og Cruise. Svo virðist sem stríðsöxin hafi verið grafin og spilar þar væntanlega inn í að Mission-myndirnar þrjár hafa halað inn 1,4 milljörðum dollara í tekjur fyrir Paramount, eða um 180 milljörðum króna víðs vegar um heiminn. „Tom og J.J. eru mjög hæfileikaríkir og við erum spennt fyrir því að vinna með þeim við að endurreisa þetta heimsþekkta vörumerki,“ sagði forstjóri Paramount.

Áður en Cruise sést leysa enn eina þrautina í Mission: Impossible IV, verður hann í hasargríninu Knight and Day sem kemur út í Bandaríkjunum 2. júlí. Þar leikur hann á móti Cameron Diaz í leikstjórn James Mangold, sem er líklega þekktastur fyrir Walk the Line.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.