Innlent

Viðræður hefjast í dag um áherslurnar

Fulltrúar Besta flokksins hittu Samfylkinguna í gærmorgun og unnu svo sín á milli að því að búa til fundaáætlun fyrir vikuna. Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson heilsast hér á fundi á sunnudagskvöldið, en Óttarr Ólafur Proppé er í bakgrunni. fréttablaðið/arnþór
Fulltrúar Besta flokksins hittu Samfylkinguna í gærmorgun og unnu svo sín á milli að því að búa til fundaáætlun fyrir vikuna. Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson heilsast hér á fundi á sunnudagskvöldið, en Óttarr Ólafur Proppé er í bakgrunni. fréttablaðið/arnþór
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar í Reykjavík hittust í gær og komu sér saman um röð leynifunda, sem auglýstir verða sérstaklega. Þar verði málefni væntanlegs meirihluta rædd, en lítið sem ekkert hefur verið tæpt á þeim.

„Við settum upp stundaskrá, enda eru margir málaflokkar sem þarf að fara yfir," segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar. Hann segir verða fundað næstu daga um málefni og er bjartsýnn á viðræðurnar.

Óttarr Ólafur Proppé segir fulltrúa flokkanna hafa náð að hittast í gær og búa til ramma utan um áframhaldandi viðræður. Reyna átti að setja saman stundaskrá yfir leynifundi í gær. Hann segir stefnt að því að hefja viðræður um málefni í dag. Menn hafi þó rekið sig á að hlutirnir gangi hægar fyrir sig en ætlað var. „Það er að hluta til vegna þess að við komum ný inn í vinnuna, en síðan hefur gengið illa að fá frið til að vinna."

Efstu menn á listum munu standa að viðræðunum. Þá er fyrirhugað að opna fyrir athugasemdir almennings á sérstakri heimasíðu skuggaborgarstjórnar.

Líkur á samstjórn allra flokka í Hafnarfirði hafa snarminnkað og í gær ákváðu Samfylkingin og Vinstri græn að hittast til málefnaviðræðna. Þær hefjast í dag. Viðræðurnar eru á frumstigi og allt á huldu varðandi áherslur, hvað þá um embætti.

Bæði Lúðvík Geirsson, núverandi bæjarstjóri, og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti Vinstri grænna, hafa gefið því undir fótinn að þau verði bæjar­stjórar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur hvorugur flokkurinn þó sett fram kröfu þar um.

Í Kópavogi ganga viðræður milli Samfylkingar, Vinstri grænna, Næstbesta flokksins og Lista Kópavogsbúa vel og er jafnvel búist við því að tilkynnt verði um nýjan meirihluta á morgun. Fulltrúar flokkanna hittust klukkan 17 í gær og stefndu á langan fund.

„Við höldum okkur við tímaáætlunina og stefnum að því að ljúka viðræðum á miðvikudag," segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×