Innlent

Tæplega 300 kannabisplöntur fundust við húsleit

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. Mynd/Stefán Karlsson

Lögreglumenn á Selfossi fundu á þriðja hundrað kannabisplöntur við húsleit í íbúðarhúsi í Hveragerði seinnipartinn í gær. Karlmaður sem var í íbúðinni var handtekinn og færður í fangageymslu.

Á staðnum fannst á annað kíló af tilbúnu marijúana auk þess var þar lítið eitt af hassolíu. Hald var lagt á plönturnar, marijúanablöðin og allan búnað tengdan ræktuninni.

Húsráðandi var yfirheyrður í gær og aftur í dag. Hann játaði að hafa staðið að ræktuninni og að hann hefði verið einn að verki.

Við ræktunina voru notaðir gróðurhúsalampar. Lögregla segir að það sé mikið áhyggjuefni að menn skuli notast við slíka lampa inni í íbúðarhúsum. Í lömpunum eru 600 watta perur sem hitni mikið og af þeim geti hlotist eldhætta ef þeir séu hafðir í þröngu rými og hvað þá ef verið sé að hylja þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×