Lífið

Þögguðu niður í króatísku stuðningsmönnunum

Gullhópurinn Strákarnir níu eru allir frá Grundarfirði, eru þar sjómenn en láta hættur hafsins bíða um sinn, enda ætla þeir að styðja íslenska landsliðið í handbolta alla leið í úrslitaleikinn. Fréttablaðið/EÁS
Gullhópurinn Strákarnir níu eru allir frá Grundarfirði, eru þar sjómenn en láta hættur hafsins bíða um sinn, enda ætla þeir að styðja íslenska landsliðið í handbolta alla leið í úrslitaleikinn. Fréttablaðið/EÁS

Þó svo að stuðningsmannahópur íslenska landsliðsins í handbolta sé ekki fjölmennur lætur hann vel í sér heyra á áhorfendapöllunum á leikjum liðsins á Evrópumeistaramótinu í Austurríki. Fréttablaðið hitti á galvaskan hóp sjómanna skömmu fyrir leik Íslands og Rússlands á þriðjudaginn hér í Stadthalle í Vínarborg. „Við heitum Gullhópurinn,“ segir Hlynur Sigurðsson stoltur. „Við erum allir sjómenn úr Grundarfirði,“ bætir hann við.

Strákarnir eru níu talsins og létu vel í sér heyra gegn Rússunum á þriðjudaginn sem höfðu skiljanlega afar hægt um sig á pöllunum. Enda var liðið kaffært af íslensku strákunum strax á upphafsmínútum leiksins. Gullhópurinn er með sína eigin söngva eins og alvöru stuðningsmönnum sæmir og tilkynna viðstöddum reglulega á meðan leik stendur að þarna séu sannir víkingar á ferð.

Gullhópurinn kom til Vínar á sunnudaginn og voru því fegnir að íslenska liðið hafði komið sér í góða stöðu í mótinu með sigri á Dönum í lokaumferð riðlakeppninnar í Linz. Þeir voru þó löngu búnir að ákveða að láta verða af ferðinni. „Við ákváðum að fara í þessa ferð í september síðastliðnum og fengum þessa góðu búninga í Henson,“ sagði Hlynur en Íslendingarnir voru auðvitað klæddir í fánalitina frá toppi til táar. En þótt það hafi verið lítið mál að styðja liðið gegn Rússlandi var leikurinn gegn Króötum spennandi frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. „Króatarnir voru mjög fjölmennir og létu vel í sér heyra,“ sagði Hlynur. „Um leið og þeir mættu einhverri mótspyrnu héldu þeir bara kjafti. Þeir byrjuðu ekki hvetja aftur fyrr en þeir skoruðu og komust aftur inn í leikinn. Við munum hins vegar styðja strákana alltaf jafn mikið, sama hvernig gengur,“ segir Hlynur en það má búast við mikilli víkingarimmu á pöllunum í dag þegar þeir íslensku mæta þeim norsku en í húfi er sæti í undanúrslitum mótsins.

Hópurinn hefur augljóslega tröllatrú á „strákunum okkar“ því þeir hafa þegar ákveðið að vera í Vín fram yfir úrslitaleik keppninnar.Handvissir um að Ísland verði annað liðið í þeim leik. „Það er ekki spurning - enda erum við Gullhópurinn!“ eirikur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.