Innlent

„Skrítið að segja lögin ómerk“

Mynd/GVA

Ólafur Ragnar Grímsson er þeirrar skoðunar, sem fyrr, að felli þjóðin ný lög um Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu þá verði eldri lög um ríkisábyrgð, sem samþykkt voru í lok ágúst, eftir sem áður í gildi. Um þetta ríkir þó óvissa þar sem ríkisábyrgðin sem lögin fjalla um er háð því að viðsemjendur Íslands, Bretar og Hollendingar, viðurkenni þá fyrirvara sem þar eru tilgreindir. Björg Thorarensen, deildarforseti lagadeildar HÍ, hefur bent á að lögin taki gildi en ríkisábyrgðin verði hins vegar ekki virk nema viðsemjendur fallist á fyrirvarana.

Um þetta atriði var Ólafur ítrekað spurður á Bessastöðum í gær og hvort lögin geti tekið gildi ef ríkisábyrgðin verður ekki virk. „Mér finnst skrítið að segja núna að þau séu ómerk og hafi í raun ekkert innihald," sagði Ólafur. Ríkisábyrgðin í lögunum er háð samþykki Breta og Hollendinga, sem þeir hafa hafnað. Ólafur sagði að sér væri það „fyllilega kunnugt". Eins að ef nýju lögin verði felld verði viðsemjendur Íslands þá að meta stöðuna en að hans mati „ríki engin stór óvissa um hver staðan verður þá". Hann segir að ríkin tvö hljóti að virða lýðræðislega niðurstöðu Íslendinga.

Rukkaður um þá staðreynd að Bretar og Hollendingar hafi nú þegar hafnað fyrirvörum fyrri laga sagðist Ólafur ekki vilja velta framhaldinu of mikið fyrir sér hver afstaða Breta og Hollendinga yrði verði lögin felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

- sjá síðu 8 til 12 / shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×