Innlent

Lítill skaði ef þjóðin samþykkir

Viðskiptaráðherra sat fyrir svörum á símafundi sem Íslensk-ameríska verslunarráðið stóð fyrir í Bandaríkjunum í gær, á sama tíma og yfir stóð blaðamannafundur forsetans á Íslandi. Fréttablaðið/Vilhelm
Viðskiptaráðherra sat fyrir svörum á símafundi sem Íslensk-ameríska verslunarráðið stóð fyrir í Bandaríkjunum í gær, á sama tíma og yfir stóð blaðamannafundur forsetans á Íslandi. Fréttablaðið/Vilhelm

Stjórnmál Verði hægt að gera fólki grein fyrir þeim kostum sem raunhæfir eru í atkvæðagreiðslu um lög um ríkisábyrgð á Icesave skuldbindingum Tryggingasjóðs innstæðueigenda þá kveðst Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra nokkuð bjartsýnn á að lögin verði samþykkt. Þetta kom fram á símafundi sem Íslensk-ameríska verslunarráðið stóð fyrir með ráðherranum og sérfræðingum á fjármálamarkaði laust fyrir hádegi að staðartíma í Bandaríkjunum í gær.

Gylfi segir tvo kosti í stöðunni, að halda þjóðaratkvæðagreiðslu eða finna fyrir þann tíma lausn sem hugnanleg væri jafnt Íslendingum, Bretum og Hollendingum. Hann áréttar þó að engar viðræður séu hafnar um aðra lausn og að óvíst sé hvort slík leið sé fær.

Verði lögin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni segir Gylfi tiltölulega lítinn skaða verða af þeirri tveggja mánaða töf sem fyrirsjáanleg er á lausn Icesave-deilunnar. Versta hugsanlega niðurstaða segir hann hins vegar ef viðræður við Breta og Hollendinga fara á byrjunarreit og lánafyrirgreiðsla annarra þjóða í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) fer í bið.

Gylfi segir að best hefði verið að ljúka Icesave-málinu eins hratt og kostur er. Komi til kosninga þá muni stjórnvöld gera grein fyrir kosti og lesti á þeim valkostum sem fólk stendur frammi fyrir, en samþykkt laganna sé að hans mati skásta niðurstaðan sem í boði sé. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×