Innlent

Smábátar breytast í tröllabáta

Smábátar landsins eru að verða æ tröllslegri og beita trillukarlar ýmsum hundakúnstum til að stækka bátana til hins ítrasta án þess þó að þeir hætti að teljast smábátar.

Ragnar SF, gerður út frá Hornarfirði, taldist raunar aflahæsti smábátur landsins á síðasta fiskiveiðiári. Af því að hann mælist 14,9 brúttótonn, en ekki 15, þá má hann fiska í smábátakerfinu.

Svona yfirbyggðum tröllabátum hefur farið fjölgandi á síðustu árum en til að þeir sleppi inn í kerfið er beitt ýmsum kúnstum. Þar sem lengd bátsins virkar þyngst í mælingunni er stefnið haft knappt, skuturinn sléttur, en á móti belgist báturinn út í hæð og breidd, því um borð vilja menn rými fyrir fjóra í áhöfn og afkastamikinn vélakost, þar á meðal stóra beitingavél. Til að auka plássið án þess að það mælist er helsta trikkið að hafa svokallaðar svalir, sem skaga aftur fyrir sjólínu.

Arnar Þór Ragnarsson, skipstjóri á Ragnari SF, glottir þegar hann er spurður hvort hægt sé að telja þennan bát sem smábát. Hann segir að reglurnar séu svona og við því sé ekkert að gera. Menn smíði eftir reglunum. En eigi það svo stöðugt á hættu að ráðamenn breyti reglunum. Arnar segir að menn hafi ekki undan að smíða eða hagræða í rekstrinum. Það sé alltaf verið að breyta öllu og menn viti ekki hvar þeir standa á hverjum tíma.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×