Innlent

EXPO skálinn opnaður formlega í dag

Íslenski skálinn á heimsýningunni EXPO 2010 í Shanghai opnaður formlega í dag en biðraðir hafa myndast fyrir utan skálann í þau fjögur skipti sem hann hefur verið opnaður óformlega. Alls hafa 22 þúsund gestir lagt leið sína í skálann.

Kristín A. Árnadóttir sendiherra Íslands í Kína, Pétur Ásgeirsson formaður framkvæmdastjórnar, Hreinn Pálsson framkvæmdastjóri íslenska skálans og Páll Hjaltason arkitekt og hönnuður íslenska skálans tóku vel á móti fyrstu gestum skálans með íslenskum gjöfum.

Áherslur íslensku þátttökunnar á EXPO er að kynna Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn, hátækni lausnir á sviði jarðhita, íslenskt hugvit og að rækta pólitísk samskipti við Kína.

Samstarfsaðilar úr íslensku viðskiptalífi eru nú þegar á sjöunda tug og koma þeir til með að nýta sér aðstöðu og/eða þjónustu skálans með einum eða öðrum hætti.

Verkefnið er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar, Geysis Green Energy, Iceland Spring, Bláa Lónsins og Icelandair. Að auki koma um 20 opinberir aðilar, fyrirtæki, samtök og stofnanir að skipulagi verkefnisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×