Innlent

Ekki gott ástand fyrir Icesave

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
„Ég held að ein af ástæðunum fyrir því að það hefur lítið til þessa máls spurst síðustu vikurnar sé pólitíska ástandið á Íslandi,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Hann, og fleiri, eru þeirrar skoðunar að ekki sé frjór jarðvegur fyrir Icesave. Ræðst það til dæmis af áhrifum landsdómsmálsins, fjöldamótmæla og átaka um lausnir á skuldamálum heimilanna.

„Ég get ekki séð að hægt sé að koma með þetta mál upp núna, að það eigi að ganga frá kröfu upp á segjum hundrað milljarða, ef við núvirðum þetta ekki, á sama tíma og staða skuldamála heimilanna er eins og hún er og hér til umræðu fjárlög með verulegum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu,“ segir Sigmundur.

Tveir ráðherrar, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkis­ráðherra, hafa í viðtölum verið bjartsýnir á gang málsins. Í samtali við Reuter í byrjun mánaðar­ins sagðist Össur telja að viðræðum lyki innan mánaðar og skömmu áður sagðist Steingrímur, á Stöð 2, vonast til að málið skýrðist mjög fljótt.

Nokkuð er um liðið frá því að þeir lýstu þessu yfir en lítið spurst af samningum fyrr en í fyrrakvöld og í gær þegar fjallað var um málið í fréttum.

Sigmundur Davíð telur málið hafa tekið undarlega stefnu. „Mér heyrist fjármálaráðherra telja sig geta klárað dæmið og hafa reynt að fá Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið til að bakka sig upp í því. Hann hefur meðal annars fengið Samtök atvinnulífsins til að hringja í þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Það er kostulegt að kommarnir séu að fá kapítal­istana til að aðstoða sig við að koma þessu í gegn hjá Sjálfstæðis­flokknum.“

Hann segist ekki vita til að nokkuð nýtt liggi fyrir frá því sem var fyrir nokkrum vikum eða jafnvel mánuðum. Þá hafi margt vantað upp á til að hægt væri að tala um samninga. „Við fengum til dæmis ekki svör við spurningum um hvort verið væri að tala um gamla samninginn með nýjum tölum eða hvort gera ætti grundvallarbreytingar á honum.“

Sigmundur kveðst kannast við umræður um þær tölur sem nefndar hafi verið, til dæmis, um þriggja prósenta vexti, níu mánaða vaxtahlé og að um 60 milljarðar króna kunni að falla á ríkissjóð. „En það var ákveðið að gera ekki neitt með þetta heldur bíða enda voru menn sammála um að ekkert lægi á.“ Aukinheldur hafi ekkert fengist á pappír.

Mat Sigmundar er að ekki sé nóg með að pólitíska ástandið nú um stundir bjóði ekki upp á umræður um Icesave heldur sé hagstætt að bíða. „Ég held að það liggi ekkert á með þetta mál og að það sé miklu skynsamlegra að taka það upp síðar. Eftir því sem tíminn líður minnkar óvissan. Við sjáum þá betur hvernig fer með þrotabú Landsbankans sem er aðalatriðið í þessu, svo lengi sem menn greiði ekki vexti á meðan. Ég held að menn ættu ekki að flýta sér í þessu.“

bjorn@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.