Innlent

Eyjafjallajökull: Héraðsráðunautar skoða öskufallssvæðið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kýr í haga.
Kýr í haga.
Teymi héraðsráðunauta alls staðar að af landinu munu á morgun og miðvikudag fara á bæi á öskufallssvæðinu fyrir austan, ræða við bændur og meta með þeim aðstæður og þörf fyrir aðstoð vegna fóðuröflunar og beitar í vor og sumar.

Það er Búnaðarsamband Suðurlands, Bændasamtökin og búnaðarsambönd um allt land sem standa að skipulagningu heimsókna ráðunauta auk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Alls munu rúmlega 20 ráðunautar koma að verkefninu frá flestum búnaðarsamböndum og BÍ. Ekki verður eingöngu farið á bæi þar sem öskufalls hefur orðið vart heldur einnig á svæði í nágrenni hamfaranna.

Ráðunautar munu hittast í Heimalandi klukkan 9 á þriðjudagsmorgun og m.a. fara yfir reglur Bjargráðasjóðs og ræða þau úrræði sem eru fyrir hendi ásamt sérfræðingum. Hópurinn heldur síðan að Höfðabrekku í Mýrdal sem verður miðstöð ráðunautanna. Ráðgert er að skipt verði upp í 2-3 manna teymi sem deila á milli sín svæðum en heimsóknir til bænda standa frá hádegi og til kvölds á þriðjudag. Á miðvikudag munu ráðunautar leggja snemma í hann og starfa á svæðinu eftir þörfum. Farið verður á bæi undir Eyjafjöllum, í Mýrdal, Meðallandi, Álftaveri, Skaftártungu, Fljótshlíð og víðar eftir atvikum.

Í heimsóknunum verður m.a. farið yfir stöðuna á viðkomandi bæjum, úrræði Bjargráðasjóðs, húspláss, fóðurbirgðir og fóðurþörf ef gosið dregst á langinn. Í teymunum eru fagráðunautar á ýmsum sviðum, m.a. jarðrækt og búfjárrækt, segir í tilkynningu frá Bændasamtökunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×