Innlent

Aðalskipulag verði tekið upp að nýju

Málið snýst um skipulagsbreytingar vegna hugsanlegra virkjana í neðri hluta Þjórsár. Fréttablaðið/stefán
Málið snýst um skipulagsbreytingar vegna hugsanlegra virkjana í neðri hluta Þjórsár. Fréttablaðið/stefán

Landsvirkjun mun óska eftir því bréflega að breytingar á aðalskipulagi verði teknar upp að nýju af hálfu Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Þetta var niðurstaða óformlegs vinnufundar sem verkefnisstjóri Landsvirkjunar átti með fulltrúum hreppsins á miðvikudag, að sögn Rögnu Söru Jónsdóttur, fjölmiðlafulltrúi Landsvirkjunar.

Þá verði samningi hreppsnefndar og Landsvirkjunar breytt þannig að fyrirtækið taki ekki þátt í kostnaði við gerð aðalskipulagsins. Hreppsnefndin muni svo taka málið fyrir, þegar þetta fer formlega í ferli.

Þetta er gert vegna úrskurðar umhverfisráðherra, sem synjaði skipulaginu staðfestingar í janúar, með vísan til kostnaðarþátttöku Landsvirkjunar. Ragna Sara vill ekki ræða um hvort krafist verði endurgreiðslu fyrir gamla skipulagið.

Gunnar Örn Marteinsson, oddviti hreppsins, leggur áherslu á að ekkert hafi verið ákveðið á fundinum. Landsvirkjun hafi ekki farið fram á það formlega að aðalskipulagið verði auglýst að nýju né beðið um endurgreiðslu. Þetta hafi „aðeins komið til tals“, en hreppurinn bíði erindis fyrirtækisins. Að hans áliti þurfi hreppurinn ekki að endurgreiða féð. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×