Lífið

Ekki kominn með nýtt starf

Hættur Þórhallur Gunnarsson er hættur á RÚV. Hann segist skilja við Ríkissjónvarpið í góðum höndum. Páll Magnússon segir að uppsögnin hafi komið honum á óvart.
Hættur Þórhallur Gunnarsson er hættur á RÚV. Hann segist skilja við Ríkissjónvarpið í góðum höndum. Páll Magnússon segir að uppsögnin hafi komið honum á óvart.

Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins og ritstjóri Kastljóssins, hefur sagt upp störfum hjá RÚV. Hann tilkynnti Páli Magnússyni útvarpsstjóra um ákvörðun sína á mánudagskvöld og greindi síðan samstarfsfólki frá þessari ákvörðun sinni í gær.

„Ákvörðunin er tekin í mestu vinsemd og það er enginn ágreiningur sem liggur hér að baki. Ástæðan fyrir uppsögninni er persónuleg,“ segir Þórhallur en uppsögnin tók strax gildi í gær. Þórhallur bjóst þó við að hann yrði eitthvað á vappi í Efstaleiti næstu daga. Hann segist ætla að hugsa málið næstu daga, hann hafi ekki gert það upp við sig hvort þetta sé endapunkturinn á fjölmiðlaferlinum.

„Ég horfi sáttur yfir farinn veg og skil við Ríkissjónvarpið í góðum höndum.“ Hann neitar því að vera kominn með nýja vinnu, uppsögn sín snúist ekki um slíkt.

Páll Magnússon útvarpsstjóri segir uppsögn Þórhalls ekki tengjast fjárhagsstöðu RÚV og viðurkennir að hún hafi komið honum í opna skjöldu. „Ég skal alveg viðurkenna það að ég dauðsé eftir Þórhalli, hann hefur staðið sig vel.“ Aðspurður hvort leit að eftirmanni hans sé þegar hafin segir Páll svo ekki vera.

„Staðgenglar hans taka við, Jóhanna Jóhannsdóttir mun sinna starfi dagskrárstjóra og Sigmar Guðmundsson verður ritstjóri Kastljóssins. Þegar svona kemur upp á má síðan búast við því að menn endurskoði eitthvað skipulagið,“ segir Páll. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.