Innlent

Bílalánafrumvarp lagt fram á næstu dögum

Höfuðstóll bílalána í erlendri mynt gæti lækkað um tuttugu til þrjátíu og fimm prósent nái frumvarp félagsmálaráðherra, sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun, fram að ganga. Ráðherra útilokar ekki að frumvarpið verði dregið til baka ef samningar takast við fjármögnunarfyrirtækin.

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra segir að samningaumleitanir við fjármögnunarfyrirtæki bílalána hafi ekki gengið gógu greitt og því hafi frumvarpið verið lagt fram. Nái það fram að ganga verður bílalánum í erlendri mynt breytt í verðtryggt lán miðað við þann tíma sem lánið var tekið á.

Ráðherra segir bílalánin vera alvarlegt vandamál hjá þeim heimilum sem eru í miklum skuldavanda.

Þessi aðgerð nær eingöngu til bílalána. Félagsmálaráðherra segir úrræði sem heimilunum hafi verið boðið með greiðslujöfnun myntkörfulána vegna íbúðarkaupa ætti að gagnast heimilum með slík lán enda sé lánstíminn lengri en á bílalánum. Þær afborganir sem fólk hefur þegar greitt eiga að nýtast því fólki. Þá verða gerðar breytingar á því hvaða eignir sé hægt að ganga á ráði fólk ekki við bílalánin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×