Innlent

Starfshópur leggur til fækkun ráðuneyta

Breytingar gætu orðið á ráðherraliði ríkisstjórnarinnar í lok sumars en frumvarp um fækkun ráðuneyta verður væntanlega lagt fram á yfirstandandi þingi.

Í tillögum starfshóps forsætisráðherra um umbætur á stjórnsýslunni er lagt til að ráðuneytum verði fækkað til að auka meðal annars faglega yfirsýn.

„Með því að búa til stærri heildar búum við til möguleika að sérhæfa sig meira í hverju ráðuneyti fyrir sig en við reyndar gerum líka tillögu um að reyna að nýta meira mannaflann sem er til í ólíkum ráðuneytum. Þegar það koma upp krísur að það sé hægt meira að færa fólk til," segir Gunnar Helgi Kristinsson formaður starfshópsins.

Tillögur starfshópsins eru í samræmi við stjórnarsáttmálann en þar er gert ráð fyrir því að ráðuneytum verði fækkað í áföngum úr tólf í níu. Meðal annars á að sameina iðnaðar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í eitt atvinnuvegaráðuneyti.

Hugmyndin um eitt atvinnuvegaráðuneyti hefur ekki hlotið hljómgrunn innan þingflokks vinstri grænna en þar á bæ ósáttir við að leggja niður landbúnaðarráðuneytið í núverandi mynd.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur lýst því yfir að hún vilji fara sem fyrst í þessar breytingar. „Ég er að vona að við getum lagt fram frumvarp um það á þessu þingi. Að því er að minnsta kosti stefnt."

Gangi þetta eftir gætu orðið verulegar breytingar á ráðherraliði ríkisstjórnarinnar í sumar. Ekki þykir ólíklegt að Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, muni víkja en þá þykir líklegt að Ögmundur Jónasson taki aftur við ráðherraembætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×