Innlent

Aðstæður kvenfanga mun lakari en karlfanga hér á landi

Kvennafangelsið í Kópavogi er eini staðurinn þar sem kvenfangar eru vistaðar.
Kvennafangelsið í Kópavogi er eini staðurinn þar sem kvenfangar eru vistaðar. Mynd/Rósa J.
Kvenfangar búa við mun lakari aðstæður en karlfangar á Íslandi. Fangelsismálayfirvöld segja brýnt að bæta aðstöðu þeirra með nýrri fangelsisbyggingu.

Kvennafangelsið í Kópavogi er eini staðurinn þar sem kvenfangar eru vistaðar. Konurnar hafa ekki átt kost að fá umbun með betri vistun séu þær til fyrirmyndar líkt og verið hefur meðal karla. Þá eru karlfangar einnig vistaðir í Kvennafangelsinu þar sem mikil þrengsli eru í öðrum fangelsum landsins. Ekki er möguleiki að skipta fangelsinu upp í deildir eftir samsetningu fanga líkt og gerist í öðrum fangelsum og möguleikar kvenna til að stunda vinnu samhliða afplánun eru takmarkaðri.

Aðstaða kvenna er mun lakari en sú sem karlar búa við. „Já, það er alveg hárrétt. Við erum með eitt fangelsi fyrir konur, og að því að þær eru það fáar eru bæði karlar og konur í vistun þar. Ef við værum með minni nýtingu í fangelsunum og fleiri rými þá gætum við hugsanlega flutt konur í önnur fangelsi en það er ekki í boði sem stendur," segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofunnar.

En ber ekki að gæta jafnræðis innan fangelsa sem og annar staðar? „Jú, en við getum ekki framfylgt því," segir Páll.

Ekki stendur til að byggja nýtt kvennafangelsi en Páll segir að í drögum að nýju fangelsi, sem stefnt er að því að takist að hefja byggingu á innan tíðar, verði góð aðstaða útbúin fyrir konur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×